þriðjudagur, september 09, 2008

Enginn veit hvað átt hefur......

Í dag er ár síðan Ásgeir Elíasson lést. Geiri var frábær maður, sennilega mesti "næs gæ" sem Ísland hefur alið. Geiri var gífurlega lífsglaður maður og geislaði alltaf þessari gleði frá sér hvert sem hann fór. Þessi gleði smitaði alla sem hann umgekkst og var því gífurlega erfitt að vera reiður eða pirraður í kringum Geira. Það var í rauninni ekki hægt. Þar sem ég er nú svona þokkalega skapstór inn á vellinum þá fann ég kannski meira fyrir þessu en aðrir. Glottið er eitthvað sem maður gleymir aldrei sem og sögurnar sem að virtust óteljandi, þótt sumar heyrðust oftar en aðrar. Sem dæmi um þessar sögur er ein sem hann sagði við mig eftir hvern einasta leik síðasta sumar. Geira þótti það nefnilega vera löstur á mínum leik hvað ég var gjarn á að safna óþarfa spjöldum. Eftir leiki þá tók hann utan um mig og leiddi mann í burtu og sagði "Dóri, ég byrjaði ungar að spila í meistaraflokki, en ég fékk ekki spjald fyrr en eftir 12 ár í meistaraflokknum. Ég var samt harður, bara ekki grófur" Svo var misjafnt hvað fylgdi á eftir þessu.

Að öllum ólöstuðum ber Geiri höfuð og herðar yfir þjálfara sem ég hef haft í gegnum tíðina. Þó hef ég, sérstaklega síðust 2 ár haft mjög góða þjálfara. Geiri var gífurlega taktískur og hafði alltaf trú á þeim sem hann henti inn á völlinn. Hann gerði kraftaverk fyrir okkur strákana sem vorum í öðrum flokki þegar hann tók við. Árið áður féllum við í C-deild með 2 jafntefli, 16 töp og og ótrúlega slaka markatölu. Hann bjó til lið úr þessum brunarústum og sýndi okkur í rauninni að við gátum alveg spilað fótbolta.

Einsog áður hefur komið fram gerði Geiri meira fyrir mig á ári en hafði gerst á fjórum árum áðuren hann kom. Sennilega vegna þess að hann var sá fyrsti í langan tíma til að hafa einhverja trú á mér. Og ég hef komist að því að það skiptir gífurlegu máli að spila fyrir þjálfara sem hefur trú á þér. Mér finnst eiginlega verst að hafa aldrei þakkað honum fyrir þennan tíma sem hann þjálfaði mig, og bara allt sem hann gerði fyrir mig. Áhrifin sem hann hafði á ÍR þetta eina ár sem hann var þar eru gífurleg og þótt að meistaraflokkurinn sem og annar flokkur séu að fara upp úr sínum deildum núna en ekki í fyrra, þá á hann gífurlega stóran hlut í þessum áföngum.

Ásgeir er maður sem mun aldrei gleymast, ekki einungis vegna þjálfaraafreka sinna heldur fyrst og fremst vegna þess hversu stór karakter hann var.
Hvíldu í friði Geiri, og þakka þér fyrir allt.
Halldór Arnarsson

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home