mánudagur, janúar 28, 2008

Brúðguminn

Það að sjá góða íslenska mynd gerir af einhverjum óútskýranlegum ástæðum alltaf meira fyrir mig heldur en þær erlendu. Ekki það að ég telji íslenskan kvikmyndaiðnað þann sterkasta í heimi, þvert á móti finnst mér hann í flestum tilfellum heldur slakur. Í fljótu bragði man ég aðeins eftir fjórum myndum síðustu ár sem hafa komist á þann pall að titlast mjög góðar. Þetta eru myndirnar Íslenski draumurinn, 101 Reykjavík, Nói Albinói og Englar Alheimsins. (Reyndar var Voksne Mennesker, eftir Dag Kára frekar góð en hún er á dönsku og gerist í Danmörku svo hún er ekki nema hálf-íslensk)
Af þessum myndum finnst mér 101 Reykjavík skara fram úr, það er bara eitthvað svo skemmtilegt við það að horfa á svona bitter-sweet stykki sem gerist á stöðum sem maður hefur sjálfur margoft gengið um, maður upplifir myndina einhvern veginn sterkar.
Síðastliðna helgi sá ég mynd sem skipaði sér á pall með þessum fjórum og það frekar ofarlega, í mínum huga allavega. Aftur er það Hilmir Snær í mynd sem aftur fjallar bara um venjulegt fólk að drekka vín og lifa frekar eðlilegu lífi. Víndrykkjan er þó minni í Brúðgumanum heldur en í 101 Rvk og erfiðleikarnir heldur meiri.

Í stuttu máli fjallar myndinn um háskólaprófessor sem flytur til Flateyjar vegna veikinda konu sinnar, kynnist þar ýmsum kynlegum persónum og hittir fyrrverandi kvenkyns nemanda sinn úr háskólanum og er strax gefið sterkt til kynna að samband þeirra er sterkara en Kennara-nemanda samband er yfirleitt. Myndin gerist ekki í tímaröð sem gerir frekar mikið fyrir framvindu sögunnar og heldur úti lengst af frekar góðri blöndu af gríni (þar sem Ólafur Darri fer á kostum sem feitur hassreykjandi alkóhólisti, sem er besti vinur brúðgumans) og drama.
En eftir því sem lengra líður á myndina verður konan veikari, lífið erfiðara og þráin til að sleppa burt verður tryggðinni yfirsterkari.
Hilmir Snær og Ólafur Darri sýna stórgóðan leik, sem og reyndar flestir leikarar og virðist sem Íslendingar séu að sleppa úr leikhúsinu og færa sig hægt og bítandi yfir í bíóhúsin.

Bjartir tímar virðist í nánd í bíhúsunum sem ég hef verið alltof latur við að stunda. Framundan eru myndir einsog The Darjeeling Limited, Cloverfield, Rambo, Atonement, Sweeney Todd, Walk Hard og eflaust fleiri sem ég er að gleyma. Að ógleymdum komandi Græna ljóss myndum sem flestar hljóma frekar spennandi, sérstaklega King of Kong sem ég held að sé mjög fyndin, getið séð myndirnar hér.

Skólaleiðinn skín í gegnum þetta blogg sem er skrifað í fráteknum tíma sem ætlaður var í undirbúning fyrir Stærðfræðipróf, niðurstaðan er þó langt frá því að vera sláandi. Ég er á byrjunarreit í stærðfræði, en lengsta blogg mitt frá upphafi er orðin staðreynd. Frekar típískt ég þar sem ég er í fáum orðum frekar latt fífl, sem nennir ekki að hafa fyrir neinu.

Halldór Aumingi

p.s. Að loknum skrifunum rifjaðist upp myndin Börn sem hefði vel sómað sér á þessum lista. Ég bara steingleymdi henni þegar ég hugsaði um þessar myndir, sem er kannski ekkert frábært fyrir mynd á Topp 10 yfir bestu íslensku mydnir síðasta áratug.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

ó þarna er ég sammála þér halldór, afbragðsgóð íslensk mynd þarna á ferð!

10:17 e.h.

 

Skrifa ummæli

<< Home