föstudagur, október 03, 2008

Fyrir Lárus

Frídagar eru mikilvægir í íþróttum og er ég sennilega einn sá besti í að nýta frídaga mína í ekki neitt. Alger aflsöppun í dag, enda er mikilvægur leikur á morgun. Dumb&Dumber rúllar í tækinu og hafrakex-pakkinn verður minni eftir því sem mínúturnar telja. Það sem er frábært við það að taka daga í það að gera lítið hérna í Danmörku er að sjónvarpsdagskráin byrjar bara um 8 leytið þar sem amerískt grín í bland við há-drama hjálpar Dananum að komast réttu megin fram úr rúminu. Ég fer snemma að sofa hérna og í morgun vaknaði ég einmitt klukkan 8, og þar sem dagskráin var frekar opin þá ákvað ég að dvelja aðeins í rúminu. Kveikti á tækinu þar sem unglingarnir í One Tree Hill rifust um allt mögulegt milli þess sem að æsispennandi körfuboltaleikir unnust á lokasekúndunum. Dramað hélt mér í rúminu þangað til um 11 leytið þegar nornirnar í Charmed birtust á skjáinn, en það er einhver mesti viðbjóður sem sjónvarp býður upp á nú til dags. Maður lætur ekki bjóða sér hvað sem er.
Tók smá skokk og teygjur áður en ég hjólaði útí búð og keypti í það mesta fyrir bögglaberann. Hann tók því samt einsog maður og stóð sína vakt með plikt.
Mikilvægur leikur á morgun og voru skilaboðin frá þjálfaranum ekkert gífurlega skýr, en það eru allar líkur á því að ég byrji inná. Ekkert nema gleiðileg tíðindi þar á ferð.

Þjálfarinn minn er gamall nagli, margir í leikmannahópnum væla mikið undan honum enda eru þessir sömu menn algerar veimiltítlur. Í gær rak hann stjörnuleikmanninn heim af æfingu, sem varð til þess að hann varð síðar um kvöldið rekinn úr klúbbnum.
Stjarnan sagði þjálfaranum frekar ópent að halda kjafti þegar þjálfarinn sagði honum að drullast til að gefa boltann. Um leið og þjálfarinn heyrði þessi fögru orð stjörnunnar sagði hann "Takk fyrir daginn Miki, viltu koma þér heim". Við þetta varð stjarnan alveg brjáluð og lét þjálfarann heyra það. Sem glotti bara og benti honum að fara heim. 15 mín eftir æfinguna var búið að rífa samning stjörnunnar og hann var sendur með skottið á milli lappanna heim.
Ég fýlaði þetta lúmskt. Hef alltaf hatað þegar sumir leikmenn komast upp með meira en aðrir og ég hef líka ótrúlega gaman af svona nöglum.

Frekar innihaldslítið í dag, bara einsog dagurinn hefur verið. Rólegur og þægileg stemming, maður er yfirvegaður og það færist yfir á bloggið. Þessi færsla hefur sennilega róandi Zen-áhrif á lesandann og er það hið besta mál svona einstaka sinnum. Maður verður samt ekki rólegur á morgun. Maður gírar sig upp í stríð og ekkert minna.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sáttur með þetta. Og ennþá sáttari með að Miki skuli vera farinn, sá sóðapési.

3:42 e.h.

 
Anonymous Nafnlaus said...

miki häkkinen er löngu hættur, lol.
gott blög, gaman að lesa um hvernig fólk lifir í öðrum menningarheimi.

8:14 e.h.

 
Anonymous Nafnlaus said...

góður í að nýta frídagana? skokk og teygjur?

Halldór, ég ætla ekki að byrja

11:27 e.h.

 
Blogger Halldór said...

Þetta var ekki frídagur vikunnar, hann er á morgun. Þetta var leikundirbúningur Rúnar. Ég var endurnærður eftir á.

9:11 f.h.

 

Skrifa ummæli

<< Home