fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Jessssör

Í öllu því óskipulagi sem umlykur mitt líf, er alltaf einhver lína. Ég hef alltaf einhvern veginn vitað hvar ég yrði eftir ár og það hefur er eitthvað sem mér finnst nauðsynlegt. Óvissa er eitt af því sem ég á erfitt með að lifa við. Til að ná markmiðum þarf ég að hafa örugga framtíð, það tekur gríðarlegan þunga af manni, og maður slappar betur af.
Mér hefur því þótt erfitt að vera hérna úti vitandi ekki nokkurn skapaðan hlut um það hvað framtíðin ber í skauti sér. Að fá þau skilaboð að ef maður standi sig ekki verði maður einfaldlega sendur heim róar ekki taugarnar, svona þegar maður er loksins kominn á þokkalegt skrið í þessari löngu ferð.
Í gær var svo endanlega staðfest að ég mun spila hérna að minnsta kosti út tímabilið. Þar sem klúbburinn er að skera niður, og minnka hópinn þá er ég mjög sáttur. Ég er ekki að fara að rúlla um göturnar á Benza eftir þennan samning, en mér er eiginlega skítsama um það, hjólið dugir mér ágætlega einsog staðan er í dag. Klúbburinn er að fara illa út úr fjármálakrísunni sem er í gangi, en boltinn er að blómstra hérna og það er aðalatriðið að mínu mati.
Annars er heimkoma staðfest 26. nóvember, og get ég varla beðið. Ekki það að lífið sé slæmt hérna, en það verður samt hrikalega gott að koma heim. Ég hef aldrei verið þessi týpa sem bölvar Íslandi og getur ekki beðið eftir að komast burt.
Í mínum huga er hvergi betra að vera en á klakanum. Þótt veðrið sé oft ömurlegt þá hefur landið einhvern óútskýranlegan sjarma.
Ég er þessi tjillari einsog svo oft hefur komið fram, rólegheitin á Íslandi eiga því vel við mig.
Ég reima samt á mig djamm-skóna nokkrum sinnum í fríinu, það verður bara að vera þannig. Móðir mín mun ekki verða sátt með það enda beið hún að eigin sögn langt fram yfir tvítugt þangað til hún kynntist víninu. Ég hef alltaf dregið þetta í efa, enda var karl faðir minn ágætis kunningi ölsins ungur að árum. Og finnst mér því ótrúlegt að móðir góð hafi staðið við hlið hans öll þessi ár án þess að dreipa á eldvatninu. Það má þó ekki túlkast að gamli hafi verið í einhverjum vandamálum, hann var bara þessi venjulegi unglingur hugsa ég.
Nóg af þessu, maturinn bíður, og maður á aldrei að láta bíða eftir sér.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Mér fynnst kominn tími á nýtt blogg Halldór!
kv. Dagmar :)

9:44 f.h.

 

Skrifa ummæli

<< Home