fimmtudagur, júlí 17, 2008

Tilfinningar fótboltamanna

Allt mitt líf hefur snúist í kringum boltaspark og árangur innan vallar. Ég var sennilega eini gæjinn sem svaf ekki eftir tapleiki í 5. flokki, sem talaði varla við fjölskyldumeðlimi sömu kvöld og einn af örfáum sem telur sigur á grasvellinum fyrir utan blokkina mikilvægari en að ganga þaðan með vinunum sem gengið var með inn á völlinn.
Ég hef tapað fullt af leikjum í gegnum tíðina, en aldrei hef ég náð þeim árangri að læra að taka ósigri og hefur þessi skapgerð mín stigmagnast ef eitthvað er eftir að árunum hefur fjölgað.
Núna er ég kominn á það stig að sigur er ekki nóg fyrir mig. Ég verð líka að vera besti maður vallarins og ef það næst ekki fer ég ekki nógu sáttur heim. Ég gleðst yfir sigrum, en alltaf er einhver hluti af mér sem er ósáttur, ég er í raun aldrei sáttur með sjálfan mig.
Sumir gætu talið þetta góðan kost, að vilja alltaf meira og setja sífellt meiri pressu á sjálfan sig og það er líka alveg rétt. Öfgar eru hinsvegar aldrei góðar og meðan ég er ekki betri en ég er í dag er ekki hægt að setja pressu á sjálfan sig að spila fullkominn leik.
Ein sending sem klikkar eða einn skallabolti sem tapast geta dregið mig niður í einhvern pirring sem stigmagnast svo ef ég geri ekki allt á fullkominn hátt.
Árið sem Geiri og Siggi tóku við sem mínir þjálfarar var það besta í langan tíma fyrir mig. Bæði innan og utan vallar. Árin þar á undan hafði mestir tími farið í það að horfa annaðhvort á leiki úr stúkunni eða bekknum. Þrír þjálfarar í röð höfðu enga trú á mér og nú var kominn tími til að annaðhvort sanna sig fyrir þessum virtasta þjálfara landsins eða detta af fullum krafti í bjórinn og miðbæinn. Ég byrjaði árið á sama stað og áður, í stúkunni þar sem ég hörfði á liðið tapa 12-4 fyrir miðlungsliði Valsmanna. Næstu leikir fóru á sömu leið og alltaf var ég á bekk eða í stúkunni. Drulluerfitt ég viðurkenni það alveg. En á þessum tímapunkti kom ekkert annað til greina en að sýna þessum gæjum að það voru mistök að hafa mig ekki í liði. Ég mætti á allar æfingar og æfði mikið aukalega þess á milli. Ég tók miklum framförum á þessum tíma og þjálfararnir tóku eftir því. Sénsarnir fóru að koma og ég nýtti þá. Um jólin var ég orðinn byrjunarliðsmaður, hægri bakvörður enginn draumastaða en samt sem áður mun skárra en stúkan. Fyllerí og þynnka annarra leikmanna komu sér vel fyrir mig því í einum æfingaleiknum var miðjustaðan laus, ég fékk sénsinn og hef haldið henni síðan.
Fyrir mig að spila lélegan leik í dag minnir mig alltaf á tímann sem ég spilaði ekki neitt. Ég fer lengra niður en nokkur annar, en að sama skapi fer ég hærra upp eftir góða leiki.
Þess vegna getur hvers sem er ýmindað sér tilfinninguna að spila mjög slakan leik í 16-liða úrslitum bikarsins og láta reka sig útaf þegar korter er eftir og liðið þitt að vinna 2-0.
Þetta sumar hefur valdið mér vonbrigðum hingað til, fleiri slakir leikir en góðir og mikið af meiðslum sem hafa dregið úr manni kraft. Hinsvegar er enginn tími til þess að liggja í fýlu. Danmörk eftir nokkra daga og þar er að duga eða drepast.

Dramatískur pistill sem var í raun bara hugsaður fyrir sjálfan mig. Það á að hreinsa hugann að skrifa um vandamálin og vonandi að það virki. En ég hef lofað sjálfum mér því að spila ekki jafn illa aftur og niðurstaðan varð í gær. Er ekki sagt að mótlætið styrki mann, ef svo er þá hlýt ég að vera helvíti sterkur.