mánudagur, febrúar 23, 2009

Vonbrigði

Eftir fremur slakan leik af minni hálfu á laugardag, toppaði það algerlega helgina að sjá mína menn spila einsog fífl gegn slöku liði Manchester City. Að vera úrvalsdeildarklúbbur í titilbaráttu sem lamast við það að missa sinn sterkasta leikmann er engan veginn ásættanlegt. Það er það eina sem hið illa afl úr Manchester borg hefur fram yfir okkur á þessum tímapunkti, og það er á góðri leið með að færa þeim titilinn. Hrikaleg vonbrigði, en það eru samt 12 leikir eftir, ekkert búið ennþá.
Hata að heyra Man Utd menn fagna titlinum, ekkert í höfn ennþá, en það versta er hvað þeir eru nálægt þessu. Grátlegt þar sem mér finnst Liverpool vera betur mannaðir á þessu tímabili, en það er þó með því skilyrði að tveir menn séu meiðslalausir. Þessir tveir menn hafa varla spilað saman allt tímabilið. Hrikaleg vonbrigði.
Var hvorki né í mínum leik á laugardaginn, lítið í boltanum og þegar ég fékk hann var ég ekkert að gera neinar rósir. Liðið spilaði illa og töpuðum 3-1. Gamall félagi skoraði á móti okkur, var rekinn í fyrra, markið vakti litla lukku hjá þjálfara og leikmönnum. Átti dauðafæri og klúðraði því, þótt að ég sé lítill markaskorari þá er það ólíkt mér að klúðra færum. Maður getur varla annað en hatað lífið á svona stundum og þá reynir maður að hugsa að fótbolti sé ekki allt.
En þegar maður býr svona langt frá flestu sem skiptir mann máli, er lítið eftir annað en boltinn. Þegar hann rúllar vitlaust er frekar erfitt að hafa gaman að litlu hlutunum.
Það eina sem bjargaði helginni var að ég sá bestu mynd allra tíma, Taken.
Liam Neeson er nettasti gæji sögunnar, staðfest. Harðari en Bruce í Die Hard, Stallone í Rambo og svona mætti lengi telja. Án efa mynd sem verður aldrei toppuð. Langt síðan ég hef verið svona "fired up" yfir mynd. Þetta verður myndin sem ég sýni syninum á fermingardaginn. Það þarf enga helvítis athöfn, taken í tækið og drengur verður að karlmanni.

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

Flottari/flottastur

Er ekki betra að vera flottari en flottastur? Ef maður er alltaf flottari, er maður þá ekki líka flottari en flottasti gæjinn? Ég hef hugsað þetta svolítið mikið og komist að því að það er ávallt betra að vera flottari en allir í kringum þig. Því upp getur komið sú staða að tveir menn eru taldir flottastir, og þá er betra að vera alltaf álitinn flottari og stela ósjálfrátt titlinum "Flottasti maður hópsins". Með þessu hef ég eyðilagt allan meting barnæskunnar (sem ennþá er til staðar þegar maður lendir í vissum hópi). Mér finnst þetta solid rök, ef þú ert flottasti gæjinn á svæðinu, geturðu þá ekki lent í því að færa þig milli svæða og finna annan flottari. Ef þú tekur það hins vegar bara upp að vera ávallt flottari en næsti maður, þá ertu ávallt í betri málum heldur en þeir sem taldir eru flottastir. Auðvitað má líka segja að best væri að ákveða að vera alltaf flottastur, en hver getur púllað með einu átfitti að ganga þau fáu skref frá Hverfisbarnum og upp á Kaffibarinn og ennþá verið flottastur? Ekki margir, og því er betra að setja sér það markmið áður en farið er inn á báða staði að vera flottari en allir sem eru þar fyrir, þetta er basic.
Ef farið er eftir þessari speki, þá áttu miðbæinn næst þegar þú ákveður að kíkja á skrallið.

mánudagur, febrúar 09, 2009

Væmnir hugarórar tapsárs nagla

Hef sagt það áður að sigurtilfinningin er sú besta. Æfingaleiks sigrar gefa einhverskonar samanþjappaði og lélega útgáfu af þessari tilfinningu, en samt sem áður alltaf gaman að vinna.
Unnum eitthvað ágætis lið á laugardaginn. Ég spilaði mjög vel og ekki skemmdi fyrir að spila með manninum sem tröllreið Rey Cup hér um árið, Mad Laudrup. Hann var betri hérna í denn, ég missti allvega ekki vatnið yfir leik hans. Skemmdi ekkert fyrir að pabbi keyrði í gegnum Danmörku á Laugardag og renndi akkúrat í hlað þegar ég stangaði knöttinn í netið, Klinsmann style. Búinn að skora í báðum æfingaleikjum vetrarins og er það eitthvað sem ég er frekar óvanur, fengið gult í báðum leikjunum líka, vanari því.
Ef maður tekur allt saman er boltinn að rúlla ágætlega og lífið utan hans er einfalt og þægilegt. Íslenskt tjill yfir flakkara stútfullum af efni eða PES leikir sem eru bæði til að kæta og nánast græta.
Ég hef eiginlega komist að því, eða í raunninni alltaf vitað hversu bráður ég get verið. Að framkvæma eða segja eitthvað í mikilli fljótfærni er oðrið alvanalegt og eru ýmsir hlutir sem ýta undir þetta. Ég hef alltaf verið fífl inná vellinum, allir vita það og ekkert verður farið dýpra í það.
Ég get heldur ekki tapað í PES, og þegar ég tapa er það aldre mér að kenna. Aldrei af því mótspilarinn (sem í gegnum tíðina hefur yfirleitt verið stórblikinn Guðmundur) sé að standa sig vel, heldur af því að kallarnir mínir geta ekki beygt eða mörk séu skoruð með svindli. Ég hata eiginlega að vera þessi gæji því það er svo ógeðslega gaman að vinna svona gæja, að með þessum kúnstum geri ég sigurinn þeim mun sætari fyrir hinn aðilann. Oftar en ekki geng ég þó of langt og eyðilegg ánægjuna fyrir hinum, sem mér finnst eiginlega verra en hitt. Það þriðja sem að kemur mér í þennan bráða gír eru rifrildi af ýmsu tagi. Þótt að ég viti oft að ég hafi rangt fyrir mér þá viðurkenni ég það aldrei. Oftast er þetta um eitthvað sem engu máli skiptir og þykir ábyggilega mörgum þetta vera mikill galli. En það er yfirleitt í þessum rifrildum sem að hlutir koma fram sem eiga ekkert að koma fram. Ég er þessi týpa sem dansar á ummæla-strikinu og kemur því fyrir að ég dett yfir það. Óþægilegast er að vita oft ekki fyrr en löngu seinna að hinum aðilanum fannst þetta of langt gengið og hef ég oft verið ansi aulalegur í stuttan eða lengri tíma eftir að hafa komið við hinu megin við strikið. Ég ætla því að biðjast afsökunar á strikaferðum fortíðar og biðjast fyrirfram vægðar við þá nánu vini sem maður er yfirleitt leiðinlegastur við. Því ég veit það líka mætavel að ég á eftir að bölva svindli í næsta PES tapleik og brenna fleiri brýr í nánustu framtíð.
Með þessu endar hin væmna færsla um lífið og tilveruna. Væmni er ágæt endrum og sinnum, og nauðsynlegt að kynnast henni til þess að skilja alla liti málarans. Væmni er kannski leiðinlegi hlutinn í spennumyndum, en hann er ómissandi. Þess vegna skellti ég í smá væmni á þessum tímum þegar það á ágætlega við, en spennan á eftir að ná hámarki í öðrum færslum komandi vetrar.
Með gleði í hjarta og bros á vör.
Halldór Arnarsson

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Átak

Alveg sama hversu vel maður stendur sig, þá er alltaf hægt að gera betur. Á einhvern hátt tel ég að þessi skrif hjálpi mér með boltann, ekki það að ég geti útskýrt það, en ég er einhvern veginn beittari þegar ég er virkur hérna. Janúar hefur verið upp og niður, en í sannleika sagt skiptir frammistaða off season litlu máli. Málið er að harka í gegnum viðbjóðinn og bæta sig í því ferli. Ég hef verið að kynnast nýju sársaukaþröskuldi á nánast hverri æfingu undarfarnar tvær vikur, en ég hef ekki ennþá tapað í neinu af þessum píningum og það segir manni bara eitt, ég er í besta forminu einsog staðan er í dag. Ekki séns að það breytist, ekki séns. Fótboltalega hef ég verið misjafn einsog áður sagði, en þó skilað mínu í báðum æfinguleikjum mánaðarins. Annar var drepleiðinlegur, típískur íslenskur vetrarleikur, þar sem frost og vindur réðu ríkjum og í þokkabót var hann klukkan 9 á sunnudagsmorgni. Ég er slök morgunmanneskja, mín klukka er ekki stillt á 8-11, þótt ég sé óðum að stilla hana þannig.
Þótt að mótið byrji ekki fyrren eftir rúma tvo mánuði eru leikir nánast hverja helgi þangað til. Virkilega jákvætt þar sem ég stokk beint inn í season síðast, þá voru 3-4 leikir búnir hjá liðinu svo aðlögunin þurfti að vera hröð. Nú fær maður þann séns að þróa sig inn í þessa heildarmynd, byrjunin hefði getað verið betri en maður verður að toppa á réttum tíma.
Þótt að búsetan sé langt frá höfuðstöðvum 365, þá hafa mér samt borist þeirra nýjasta afurð "Atvinnumennirnir okkar". Slóg mig svolítið hvað ég sé part af sjálfum mér í tveimur af allra klikkuðustu og umtöluðust mönnum þjóðarinnar, Hemma Hreiðars og Loga Geirs. Ýmsa hluti er ég algerlega laus við, en einhver element sem maður hefur. Ótrúlegt að hugsa til þess að Hemmi Hreiðars hafi 22 ára gamall farið í ensku 3. deildina....það er nánast einsog að spila í NFL.
Þeir fjölskyldumeðlimir og hinir allra trúföstustu úr mínum vinakjarna geta glatt sig yfir reglubundum skrifum hérna inni. Þangað til síðar.....