föstudagur, janúar 23, 2009

Dýrseðlið

Frábær kvöldmatur matreiddur hér í Herfölge í kvöld. Klúbburinn gaf okkur verslunarleyfi og helmingi hærri fjárhæð en vanalega er eytt í um helgar og var því fagnað með kaupum á dýrindis nautakjöti. Frábær tilfinning að rífa í sig blóðrautt kjötið og er það sennilega á einhvern hátt tengt þeirri staðreynd að naut eru jú risastórar skepnur sem að gerir upplifunina á einhvern hátt karlmannlegri. Meðlætið var öllu kvenlegra og verður ekki farið fleiri orðum um það hér. Svo að myndin sem þið fáið upp í hugann er aðeins af mér að rífa í mig nánast hráa nautasteik og skola henni niður með hálffullu glasi af viskí, og glasið er þar að auki drulluskítugt. (viskíið var ekki til staðar, gerir myndina bara þeim mun betri)
Annars er leikur í fyrramálið svo hugurinn er þar. Rólegt rölt í Köge í dag og áframhaldandi rólegheit í kvöld. DVD-gláp og afslöppun á einkar vel við mig svona á föstudagskvöldum og því er þetta ágætt. Ys og þys miðbæjar eru ágæt í stuttan tíma, en tjillið á einhvern veginn betur við mig. Þess vegna fagna ég rólegaheitarkvöldum komandi mánaða, en innst inni blundar sumardýrið sem hlakkar til þess þegar sól hækkar og útilegur og ljúft líf tekur við.
Jafnvel er spurnig með Hróarskeldu?
En einsog staðan er í dag er hugurinn við boltann og líkar það vel. YaYa verður nú ekkert endalaust í Barca......

mánudagur, janúar 19, 2009

Öll frí taka enda

Bloggpásan búin, en síðustu þættir Dagvaktar hindra mig í að hafa þetta langt í þetta sinn. Eftir frábært jólafrí, sem endurnærði allar þær þreyttu taugar og ekki síst vöðva sem ég dröslaðist með heim, er maður byrjaður aftur. Fyrsti leikur er næstu helgi og hlakka ég til. Mér er að ganga alltaf betur og betur og hlýtur það að vera jákvætt. Von á íslenskum blæ á næstu dögum og er frábært að fá félagsskap frá landinu góða, og sérstaklega þar sem þarna er góðvinur á ferð.
Komandi færslur verða sennilegast lengri, en svona í stuttu máli líður mér betur en ég þorði að vona og framtíðin virkar björt, en skjótt skipast veður einsog menn segja.......