þriðjudagur, september 30, 2008

Jóhann Berg

Áður en ég segi nokkuð annað finnst mér frábært að sjá hann fara út til Hamborgar. Hann er jú einn af efnilegustu leikmönnum Íslendinga í boltanum og stóð sig vel hérna heima.
En hann sannaði það algerlega að fótboltamenn eru flestir nautheimskir og eiga ekki að fara í viðtöl einir við fjölmiðla. Að segja að Þjóðverjar séu yfirhöfuð leiðinlegir er eitthvað mesta skot í fótinn sem ég hef séð lengi.
Ég hló samt að þessu, en sennilega fáir sem taka eftir þessu nema ég. Ég er sérlegur áhugamaður um heimskuleg viðtöl og staðhæfingar fótboltamanna. Jóhann Berg á bjarta framtíð í bransanum.

(Viðtalið við Jóhann Berg má sjá hér- http://www.fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=67469)

mánudagur, september 29, 2008

Langt síðan síðast, kannski vegna þess að þetta ævintýri er að komast í vana. Það sem var spennandi og þess virði að tala um í byrjun gerist núna á hverjum degi. Ég er búinn að vinna mér fast sæti í hópnum hjá varaliðinu. Það er hinsvegar ekki nóg held ég og verð ég því að stíga aðeins upp. Þjálfarinn sagði samt að ég hafi gert það markvisst frá því ég kom, svo það hlýtur að vera jákvætt. Sénsarnir eru farnir að detta betur inn, og ég er alveg að nýta þá þokkalega.
Vandamálið fyrir mig er að svona 3 bestu leikmennirni eru miðjumenn, og svona allt í allt er u 8-9 mjög hæfir miðjumenn í þessum klúbbi. Að sjálfsögðu hef ég sjálfan mig inn í þessari talningu en hingað til hafa aðrir verið teknir framyfir mig. Mjög skiljanlegt þar sem ég er nýr í dönskum bolta.
Ég er í massífu æfingaprógrami, æft tvisvar á dag og allur pakkinn tekinn á þessum aukaæfingum. Eftir seinni æfingu dagsins liggur leiðinn í gymmið eða almennan viðbjóð úti á velli eða í stigum stúkunnar. Það er alveg að skila sér, ég finn það og þetta hefur góð áhrif á sjálfstraustið.
Við unnum annars eitthvað lið 5-0 í gær. B 1909. Ég spilaði í 20 mín eða eitthvað sem eru vonbrigði, en skilaði mínu samt vel.

Svona fjölskyldunni að segja þá er eldamennskan að færast á hærra plan. Mér þætti það ekkert undarlegt þótt ég væri beðinn um að taka jólasteikina vegna framfara minna fyrir aftan pottana. Það kemur hins vegar ekki til greina. Ég ætla að slappa virkilega vel af og láta mömmu púla í eldhúsinu. Ég er ekki betri manneskja en þetta.
Styttist í heimsóknir sem verða án vafa ánægjulegar. Það læðist líka reglulega að manni hvað það verður helvíti gott að koma heim. Og hlakka ég sérstaklega til jólaboðanna.
Ömmur mínar mega nefnilega eiga það að vera mun betri en ég inn í eldhúsinu. Ég kenni reynsluleysi mínu um, enda vita flestir að ég skara fram úr í flestu sem ég tek mér alvarlega fyrir hendur. Maður getur í rauninni ekkert að því gert.

þriðjudagur, september 23, 2008

Versta augnablik sumarsins

Djöfull var ég lélegur. Hvað var ég að pæla að vera númer 5? Kenni þvi algerlega um ófarirnar.

sunnudagur, september 21, 2008

Fyrsti sigurinn

Það er ekkert jafn gott og að vinna fótboltaleik. Ég hugsa nú samt að tilfinningar mann séu eins misjafnar og mennirnir. Þessi gleðitilfinning sem allt virðist snúast um, lífsgæðakapphlaupið. Langflestir virðast á þeirri skoðun að peningar veiti þessa tilfinningu. Og þeir gera það líka ábyggilega hjá mörgum. Þessa tilfinningu fæ ég hinsvegar einsog áður kom fram með því að sigra í hinni fögru íþrótt.
Sigrarnir eru samt missætir. Þannig er það bara, ég hef unnið marga leiki sem var hundleiðinlegt að spila og yfirleitt er það vegna vanmáttar andstæðinganna.
Í dag var einn af þessum sætu dögum. Fullkominn gleði í enda leiks og hélst hún eitthvað fram eftir degi. Það var kannski það að lenda 2-0 undir og vinna svo 4-2, eða kannski það að þetta var í fyrsta skipti sem ég spila fyrir framan alvöru áhorfendur. Þetta voru bullur.
Blindfullir, miðaldra menn sem sungu og öskruðu allan tíman. Og allir studdu þeir hitt liðið. Þeir sem hinsvegar þekkja mig vita að ég er erkifífl og þetta voru því kjöraðstæður fyrir mig. Að fagna fyrir framan aðdáendur hins liðsins er eitthvað sem dró mig áfram.
Ég hef aldrei verið mikill “fair play” gæi. Þess vegna gat ég ekki annað en brosað um árið þegar Gary Neville fagnaði fyrir framan Liverpool aðdáendurna, því þetta er eitthvað sem mig hefur dreymt um að gera í mörg ár. Að fagna fyrir framan hörðustu Man Utd stuðningsmennina á Old Trafford. Sumt verður ekki metið til fjár.
Danirnir eru svona að taka mig í sátt. Þessir allra hörðustu virðast svona farnir að mýkjast og hljóta það að teljast gleðitíðindi. Það eru þó fífl inná milli, það verður að viðurkennast. Ég er búinn að vera hérna í 3 vikur og það eru tveir menn sem ég blátt áfram þoli ekki. Ekki orð um það meir, sumir eru einfaldlega leiðinlegri en aðrir.
Ír-ingarnir aumingjuðust til að tapa í lokaumferðinni og fóru því ekki taplausir í gegnum mótið. Ég hugsa það hafi samt verið mikil gleði og sumbl í gærkvöldi þegar uppskeruhátíðin fór fram. Fyrsta kvöldið sem mér hefur þótt virkilega erfitt að vera einn í Dk. Það er nefnilega rugl gaman á uppskeruhátíð ÍR, og núna þá unnu báðir mfl, og annar flokkurinn sitt í sumar. Gleði, gleði, gleði.
Vona bara að allir hafi fengið að skemmta sér einsog þeir vilja, heyrði orðróm um mikla gæslu fyrir þá yngri, sem er hálfbjánalegt svona í enda sumars þegar allt er í höfn.
Hugsa að það sé breakfast of champions núna. Hafragrautur, smá súkkulaðimúslí (sunnudagstrít) og skelli svo smá kókómjólk út í í enda suðunnar. Þá fær maður gott súkkulaðibragð. Skola svo öllu niður með íslensku lýsi. Já ég fann íslenskt lýsi í Danmörku. Það er að vekja mikla lukku hérna. En til þessa hefur enginn þorað að smakka þetta.

föstudagur, september 19, 2008

Same old, same old

Lífið hérna er að komast í vana, og mér líkar það alltaf betur og betur. Ég hef einhvern veginn gjörbreyst í hugsun síðan ég kom hérna. Segi ekki að ég sé jákvæðasti maður í heiminum, en jákvæðari þó. Þá meina ég að sjálfsögðu innan vallar, þar sem ég er þokkalegur utan hans. Minna af blótsyrðum og öskrum þótt að liðsfélagarnir hlægi reglulega að mér. Hvorki vanir öskrunum né íslenskunni.
Leikur á morgun í Óðinsvé, og ég er virkilega stemmdur. Vonandi að það skili sér, þótt að ég hafi verið látinn vita að bekkurinn bíði eftir 2 tíma rútuferð, en Hr. jákvæður lætur það ekki á sig fá. Brosir í gegnum storminn, maður labbar jú aldrei einn. Þessi regla þeirra að aðalliðið gangi fyrir er að setja auka vindstig í storminn. Það verður þá bara sætara þegar lægir.
Einn af þessum áskriefndum af byrjunarliðssæti var að hætta, þoldi ekki storminn. Ágætt fyrir mig, en ég kunni ágætlega við hann svo ég græt ekkert úr hamingju.

En að öðru en fótbolta, þá er ég kominn með ágætis orð á mig hérna í húsinu fyrir að vera góður í eldhúsinu. Þetta eru frekar miklir mömmustrákar sem að eru ekki vanir að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég aldist nú upp við góðar aðstæður þar sem langflest var gert fyrir mig, en ég kann þó á þvottavél og get kokkað fram flóknari réttu en pylsur og 1944. Þessir drengir virðast ófærir um það. Frekar svona lélegt, en mér dettur ekki í hug að gera nokkurn skapaðn hlut fyrir þá. Ég er margt en duglegur við húsverkin, það er ég ekki. Far from it.

Þar sem að fjölskyldan virðist næstum öll vera kominn með ágætis sæti að þessari sýningu sem sett er hér upp einstaka sinnum, þá er ágætt að nýta tækifærið og skila kveðju. Fólk er duglegt á skypeinu og er það að hjálpa mér mikið.

Ég ætla að detta í eldhúsið, kjúlli og spaghettí í sveppasósu með kartöflum, tómötum og sveppum. Maður hendir kannski inn smá lauk fyrir gamla, efa það samt. Laukurinn er ekki hringja góðum bjöllum í kvöld.

mánudagur, september 15, 2008

Réttlætið sigrar alltaf

Skil ekkert í mér að hafa ekki skrifað um það þegar mínir menn í Liverpool völtuðu yfir erkifjendurna í Man Utd. Það þarf ekkert að fjölyrða um það. Einstefna og réttlæti eru orð sem lýsa þessu vel. Ljúft að sjá Kuyt eiga svona góðan dag því það eru jú yfirleitt Manchester menn sem efast um ágæti hans. Mascherano sá svo um að pakka hinum annars ágæta Anderson saman og var einkar ánægjulegt að fylgjast með honum í þessum leik. Sjaldan sem Wayne Rooney er hent til hliðar einsog kartöflupoka.

Maður er á leiðinlegum stað í lífinu núna. Bekkurinn er hrikalegur, hvar í heiminum sem er, það eina góða er að maður er alltaf að fá slatta af mínútum. Byrjaði einn af þremur, ekkert alslæmt svona fyrstu vikuna. En bekkurinn er samt hrikalegur. Andinn er ekki yfir manni í kvöld.
Þetta verður ekki lengra.

Já og fyrst talað var um slaginn á Anfield. Xabi Alonso átti sviðið, það þarf ekkert að ræða það frekar. Brasilíska undrabarnið og Enlendingarnir tveir vissu ekkert hvaðan á þá stóð veðrið.

föstudagur, september 12, 2008

Frí

Maður er svolítið farinn að finna fyrir því að vera fjarri fjölskyldu og vinum. Hefur svosem ekki áhrif á mig inn á vellinum einsog margir hafa lent í. Er alveg að standa mig ágætlega, gæti verið betri en það tekur tíma að venjast tempóinu og það hjálpar kannski ekki að akkúrat núna að vera að æfa tvisvar á dag. Helmingi meira en margir aðrir. En maður uppsker einsog maður sáir. Það er bara spurning hvenær uppskeran kemur í hús.
Ég hugsa samt að milli æfinga sé ég mesti tjillari sem sést hefur í langan tíma. Það er þessi fullkomna blanda, dýrvitlaus á æfingum og svo afslappaður einsog björn í dvala þess á milli.
Ég er líka orðinn tuddi í eldhúsinu. Þvottahúsið er líka orðið mitt, ég veit ekki hvað foreldrar eru alltaf að nota þetta gegn manni. Þetta er algjört pís of keik.
Fékk hjól í gær, ágætis hjól sem klúbburinn skaffaði. Þeir eru frekar æstir í að skaffa flest sem manni dettur í hug að biðja um. Nema fæðubótarefni, Danirnir eru ekkert hrifnir af þeim.
Maður skreppur til Köge á eftir og dettur í smá búðarráp. Það er ljúft að fara bara í þær búðir sem mig langar að fara í. Þannig að ég hef aðallega farið í Fona, Intersport, Sportmaster og Al's DVD butik.
Þarf að kaupa eitthvað í eldhúsið í dag, skil ekkert í mér að hafa ekki nýtt mömmu í það. Hún hefur gífurlega reynslu af svona löguðu.
Maður veður svona úr einu í annað í dag. Ekkert mikið í gangi nema heimilislíf núna.
Kveðja frá DK.
Pís

þriðjudagur, september 09, 2008

Enginn veit hvað átt hefur......

Í dag er ár síðan Ásgeir Elíasson lést. Geiri var frábær maður, sennilega mesti "næs gæ" sem Ísland hefur alið. Geiri var gífurlega lífsglaður maður og geislaði alltaf þessari gleði frá sér hvert sem hann fór. Þessi gleði smitaði alla sem hann umgekkst og var því gífurlega erfitt að vera reiður eða pirraður í kringum Geira. Það var í rauninni ekki hægt. Þar sem ég er nú svona þokkalega skapstór inn á vellinum þá fann ég kannski meira fyrir þessu en aðrir. Glottið er eitthvað sem maður gleymir aldrei sem og sögurnar sem að virtust óteljandi, þótt sumar heyrðust oftar en aðrar. Sem dæmi um þessar sögur er ein sem hann sagði við mig eftir hvern einasta leik síðasta sumar. Geira þótti það nefnilega vera löstur á mínum leik hvað ég var gjarn á að safna óþarfa spjöldum. Eftir leiki þá tók hann utan um mig og leiddi mann í burtu og sagði "Dóri, ég byrjaði ungar að spila í meistaraflokki, en ég fékk ekki spjald fyrr en eftir 12 ár í meistaraflokknum. Ég var samt harður, bara ekki grófur" Svo var misjafnt hvað fylgdi á eftir þessu.

Að öllum ólöstuðum ber Geiri höfuð og herðar yfir þjálfara sem ég hef haft í gegnum tíðina. Þó hef ég, sérstaklega síðust 2 ár haft mjög góða þjálfara. Geiri var gífurlega taktískur og hafði alltaf trú á þeim sem hann henti inn á völlinn. Hann gerði kraftaverk fyrir okkur strákana sem vorum í öðrum flokki þegar hann tók við. Árið áður féllum við í C-deild með 2 jafntefli, 16 töp og og ótrúlega slaka markatölu. Hann bjó til lið úr þessum brunarústum og sýndi okkur í rauninni að við gátum alveg spilað fótbolta.

Einsog áður hefur komið fram gerði Geiri meira fyrir mig á ári en hafði gerst á fjórum árum áðuren hann kom. Sennilega vegna þess að hann var sá fyrsti í langan tíma til að hafa einhverja trú á mér. Og ég hef komist að því að það skiptir gífurlegu máli að spila fyrir þjálfara sem hefur trú á þér. Mér finnst eiginlega verst að hafa aldrei þakkað honum fyrir þennan tíma sem hann þjálfaði mig, og bara allt sem hann gerði fyrir mig. Áhrifin sem hann hafði á ÍR þetta eina ár sem hann var þar eru gífurleg og þótt að meistaraflokkurinn sem og annar flokkur séu að fara upp úr sínum deildum núna en ekki í fyrra, þá á hann gífurlega stóran hlut í þessum áföngum.

Ásgeir er maður sem mun aldrei gleymast, ekki einungis vegna þjálfaraafreka sinna heldur fyrst og fremst vegna þess hversu stór karakter hann var.
Hvíldu í friði Geiri, og þakka þér fyrir allt.
Halldór Arnarsson

mánudagur, september 08, 2008

Smá svona

Ég reyndi lengi að blogga um fyrsta leikinn minn í búningi Herfölge BK. Það var hræðilegt, fínn leikur samt af minni hálfu. Nothing more, nothing less. Maður er að komast inn í þetta. Náði nokkrum virkilega góðum tæklingum, skilaði 90% af sendingum og svona þokkaleg yfirferð á manni.

Kem kannski með meira seinna, efa það samt. Verð samt að bæta við að tempóið er töluvert meira hérna og kick n run er ekki til. Þeir spila stundum of mikið ef eitthvað er. Er samt að fíla mig þokkalega. Styrkist með hverjum degi og danskan svona aðeins að myndast.

Er uppgefinn, langt síðan maður var almennilega þreyttur eftir leik. Tempóið í C-deildinni í sumar var ekkert upp á marga fiska. Var búinn að gleyma hvað manni líður vel eftir alvöru leik.
Þangað til næst, keeeeep it real

föstudagur, september 05, 2008

Who the fuck or Man United?

Ég er alveg að elska Manchester City þessa dagana. Aðallega vegna þess að núna eru allir glorychaserarnir sem styðja Man Utd farnir að verða hræddir við stórkaup grannanna í City. Þótt ég sé harður Poolari þá væri bara alltof ljúft að sjá þessa umræddu framaelskandi glamúrsaumingja gráta þegar erkióvinirnir stela borginni.
Sir Alex segist ekki hræðast þá, en ef Liverpool geta ekki hunskast til að lyfta þessum bikar, þá væri ekkert skemmtilegra en að sjá Richard Dunne lyfta bikarnum og syngja Who the fuck are Man Utd!

Ég er sennilega búinn að horfa á of mikið af Hollywood íþróttamyndum, en þar lærir maður samt að allt getur gerst og það er eiginlega bara betra að vera lélegur í byrjun myndar, helst sá versti í þínu fagi. Því á endanum sigrar réttlætið alltaf, og það hafa United menn ekki með sér.

miðvikudagur, september 03, 2008

Living the dream

Mikilvægt skref í átt að mínum markmiðum var tekið síðastliðinn sunnudag þegar ég skrifaði undir samning við Herfölge BK. Mörg skref eftir ennþá, því ekkert er unnið ennþá. Ef maður stendur ekki undir þeim væntingum sem gerðar eru, þá eru hausar fljótir að fjúka.
Það er ekki séns að ég láti það gerast. Ég hef ekki lagt þetta á mig til að aumingjast hérna í einhverjum 6000 manna bæ á Sjálandi.

Ég hélt samt alltaf innst inni að þetta væri eitthvað vinaboð, leyfa mér að leika með alvöru fótboltamönnum og senda mig svo bara í næstu vél. Eftir nokkra daga hér hef ég komist að því að svo er ekki. Þessir menn hafa ágætis trú á því að ég verði góður fótboltamaður.

Og djöfull er gott að vera loksins hjá einhverjum sem er ekki að gera mönnum greiða með því að leyfa þér að æfa hjá sér. Er alltof þreyttur fyrir langt og strangt í dag. Endum þetta á því sem hefur komið mér út í slagviðrið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
Ég mótaði hana aðeins fyrir mig, en allir sem vita um hvað málið snýst skilja þetta.


It's not even about football anymore, it's about proving them wrong.

Djöfull skal ég.